Á veðramótum

Allir hafa skoðun á veðrinu. Veðrið er eitthvað sem við öll upplifum og eigum sameiginlegt og þess vegna tilvalið að brjóta upp vandræðalegar þagnir með yfirborðslegum samræðum um það. Það á alltaf við enda er það alltaf nálægt. Í heita pottinum, á kaffistofunni, í partýinu. Því hefur oft verið fleygt fram að Íslendingar hafi sérstakan og oft óeðlilegan áhuga á veðrinu. Af hverju skiptir veðrið okkur svona miklu máli?

Nútíma vísindi hafa hjálpað okkur að spá fyrir um komandi veðurskilyrði en vísindin hafa ekki alltaf verið til staðar. Fyrir innreið vísindanna þurfti fólk að nota aðrar aðferðir. Fólk þurfti að hlusta, horfa, finna og nema. Fólk þurfti að setja sig í samband við náttúruna og umhverfi sitt. Þessar aðferðir eru alþýðuvísindi sem hafa gengið manna á milli, kynslóð eftir kynslóð. Þetta er vitneskja sem fólk hefur safnað að sér, þróað og betrumbætt í gegnum árin. En þegar við erum komin með Veðurstofu Íslands skipta þá þessar gömu aðferðir einhverju máli? Er þetta úrelt og óþarft og senn að falla í gleymsku eða getur verið að alþýðuvísindin skáki við tölvum og reiknilíkönum dagsins í dag á einhverjum sviðum?

Hér er rætt við Eirík Valdimarsson þjóðfræðing en þátturinn er byggður á meistararitgerð hans „Á veðramótum. Íslenskar veðurspár og veðurþekking þjóðarinnar fyrr og nú.“ Eiríkur segir frá því hvernig veðurspár voru framkvæmdar áður fyrr, hvað þurfti til þess að lesa í veðrið og hverjir það voru sem spáðu. Auk Eiríks er rætt við fjóra meðlimi veðurklúbbsins á Dalvík en þar er ennþá starfræktur félagsskapur sem les í veðrið á gamla mátann.

Ritgerð Eiríks má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Flokkur: Menningararfur, Þjóðtrú og alþýðuvísindi Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/6648
css.php