Íslenski þjóðbúningurinn

Flestir íslendingar sem komnir eru til vits og ára ættu að þekkja íslenska þjóðbúninginn. Þó fólk kannist ekki endilega við elstu búningana eins og faldbúninginn og peysufötin, kannast eflaust flestir við 20. aldar upphlutinn. Sú flík var eðlilegt skref í þróun þjóðbúninganna en hún var einnig hönnuð með það í huga að líkja eftir landinu okkar og upphefja íslenska kvenlíkmann sem vettvang þjóðernisins. En hefur þróun búningsins náð endastöð? Á hann hér eftir að vera í óbreyttri mynd?

Í þessum þætti er þróun íslenska þjóðbúningsins rakin og sérstaklega er vikið að þætti Sigurðar Guðmundssonar málara og þeim breytingum sem hann stóð fyrir á hefðinni. Þátturinn byggir á BA ritgerðinni: Þráðurinn á milli fortíðar og nútíðar: Ímyndarsköpun í íslenskum fatnaði fyrr og nú sem Ingibjörg Hanna Björnsdóttir skrifaði í þjóðfræði árið 2009. Í þættinum segir hún okkur frá hlutverki þjóðbúningsins í lífi kvenna og sem hluta af þjóðernisvakningu landans. Hvað hugsum við þegar við sjáum konu á upphlut, hvað táknar búningurinn og hvernig tengist fjallkonan þessu öllu saman?

Auk Ingibjargar er rætt við Valdimar Tr. Hafstein dósent í þjóðfræði en hann setur umræðuna í samhengi við nútímavæðinguna sem þarna var í fullum gangi. Kvenlíkaminn, skreyttur þjóðbúningnum, varð vettvangur þjóðernisins og tákn lands og þjóðar. Valdimar ber þetta saman við karlmannslíkamann og hvernig þjóðernið var sviðsett í honum í gegnum þjóðaríþróttina – glímuna. Þessi ólíki menningararfur okkar Íslendinga er hér borinn saman og notaður til þess að varpa ljósi á notkun hans, merkingu og þróun.

Ritgerð Ingibjargar má nálgast á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Ítarefni

„Menningararfur er nýr af nálinni“ – Grein eftir Valdimar Tr. Hafstein dósent í þjóðfræði sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins

Heimasíða Þjóðbúningaráðs

Heimasíða Þjóðdansafélags Reykjavíkur

Yfirlýsing Þjóðdansafélagsins vegna umfjöllunar Grapewine um þjóðbúninginn

„Þankabrot um gerð og notkun íslenska þjóðbúninga“ – Aðsend grein á mbl.is

 

Flokkur: Efnismenning, Menningararfur
css.php