M og R er merkið mitt

Allir sem gengið hafa í framhaldskóla ættu að kannast við taugatrekkjandi upphafsdaga nýja skólans. Óvissuna, óþægindin og algera hunsun frá eldri nemendum. Þetta tímabil sem kallað er busun hefur verið á milli tannanna á fólki lengi og ekki allir sammála um mikilvægi busunar. En er busun mikilvæg? Er þetta eitthvað annað en hrottalegar árásir eldri nemenda á þá yngri? Þessi þáttur ætti eflaust að geta hjálpað einhverjum að finna svör við þessum spurningum og fleiri.

Busunin er ólík milli skóla en allar bera þær með sér sameiginleg einkenni. Terry Gunnell prófessor í þjóðfræði hefur rannsakað þróun og form busasiða í framhaldsskólum á Íslandi. Í rannsóknum hans kemur fram að meðal annars þessir siðir eigi stóran þátt í því að skapa sjálfsmynd skóla auk þess sem Terry bendir á að busasiðir innihaldi flest atriði sem finnast í innvíglusiðum víðsvegar um heiminn, þ.e. táknrænan dauða, hreinsun og endurmenntun í leyniþekkingu.

Þessi þáttur byggir á samnefndri BA ritgerð Ciliu Marianne Úlfsdóttur sem hún skrifaði í þjóðfræði árið 2008. Ritgerðin fjallar um hefðir og siði sem skapast hafa í Menntaskólanum í Reykjavík en í þættinum er sérstaklega fjallað um busavígslur, framkvæmd þeirra, tilgang og afleiðingar.

Auk Ciliu er rætt við Kristínu Einarsdóttur aðjúnkt í þjóðfræði en hún ræðir um gildi og merkingu þessarra siða og hvaða tilgangi þeir gegna fyrir hópinn. Til þess að fá nánari tilfiningu fyrir busavígslunni sjálfri er rætt við Einar Lövdahl Gunnlaugsson Inspector Scholae veturinn 2011 – 2012 og Þorstein Guðmundsson grínista og fyrverandi MR-ing en þeir lýsa upplifun sinni og eigin skoðunum á busavígslunni í MR.

Ritgerð Ciliu má nálgast á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Ítarefni

Heimasíða Menntaskólans í Reykjavík

„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja.“ Íslenskir framhaldsskólasiðir – uppruni og endursköpun – Meistararitgerð Ciliu Marianne Úlfsdóttur í þjóðfræði

Hin árlega busavígsla – til hvers? – Grein eftir Ciliu Marianne Úlfsdóttur á visi.is

Foreldrar fá að ráða hvort barnið sé busað – grein á visir.is

Niðurlægingin – bloggfærsla Ragnars Þórs Péturssonar

 

 

Flokkur: Hátíðir og merkisdagar, Hefðir og siðir
css.php