Mesta fjörið er alltaf í eldhúsinu og matur er manns gaman

Af hverju var fólk að breyta eldhúsunum svona mikið í kringum árið 2007? Af hverju voru allir að rífa niður veggi? Með þessum orðum opnar Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir þáttinn hér fyrir ofan sem fjallar um þróun eldhússins og matarboð. Þátturinn er sameinar umfjallanir tveggja BA ritgerða sem skrifaðar voru í þjóðfræði, annarsvegar á ritgerð Sigrúnar „Mesta fjörið er alltaf í eldúsinu“ og hins vegar ritgerð Berglindar Mari Valdemarsdóttur sem skrifaði ritgerðina „Matur er manns gaman.“ Með því að blanda þessum umfjöllunarefnum saman, sem óneitanlega eru nátengd, komumst við að ýmsu skemmtilegu um eldhúsmenningu landans.

Með uppgangi borgarastéttarinnar var aukin áhersla lögð á hreinlæti, vélvæðingin tröllreið öllu og ólíkir þættir tilverunnar voru aðskildir í meira mæli en áður var. Áhrif alls þess má sjá í eldhúsinu og þróun þess og allt var þetta gert í þeim tilgangi að bæta líf almúgans og gera það skilvirkara. En varð það raunin?

Berglind ræðir um áhrif opna eldhússins á matarboðin sem nú er stór þáttur af matarmenningu okkar. Hverju þarf að huga að þegar fólk opnar heimili sitt fyrir öðrum, hvernig er heimilið sett á svið og hvaða áhrif hefur það á sviðssetninguna að eldhúsið er í æ ríkari mæli opið inn í stofu?

Inn í þessar spurningar fléttast hugmyndir okkar um hlutverk kynjanna, ímyndarsköpun einstaklinga og sviðsetning hversdagsins. Það er einhver kraftur sem myndast inni í eldhúsinu sem fólk sækir í. Þess vegna er alltaf mesta fjörið í eldhúspartýinu.

Ritgerð Sigrúnar Hönnu má nálgast á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni en ritgerð Berglindar Mari er hægt að nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

Vinamót: Um veislur og borðsiði eftir Bergþór Pálsson gefin út af JPV útgáfunni 2007

Nútímaheimilið í mótun: Fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970 eftir Arndísi S. Árnadóttur gefin út af Háskólaútgáfunni 2011

Flokkur: Efnismenning Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/5313
css.php