Stefnumót við bakkus

Því er stundum haldið fram að drykkjumenning Íslendinga sé til skammar. Hún snúist fyrst og fremst um að drekka sem mest á sem minnstum tíma og sé landi og þjóð til skammar. Að sama skapi má oft heyra Íslendinga berja sér á brjóst og hreykja sér af því að þeir séu heimsins mestu drykkjuhrútar, eins og það sé hinn mesti mannkostur. Viðhorf Íslendinga til drykkjunnar virðist því vera svolítið tvíbent.

Steinunn Guðmundardóttir rannsakaði drykkjumenningu landans í BA ritgerð sinni í þjóðfræði og tengslum hennar við stefnumótamenninguna (sem mörgum finnst reyndar einnig vera til háborinnar skammar). Er eitthvað til í mýtunum um það að Íslendingar kunni ekki að umgangast áfengi eða að þeir geti drukkið hvern sem er undir borðið? Hvaðan spretta þessar hugmyndir og hvaða fyrirmyndir eigum við þegar kemur að drykkju? Steinunn veltir þessum spurningum fyrir sér og leitar fyrirmyndanna allt aftur til landnámsaldar og veltir fyrir sér hvort skortur sé á kvenlægum fyrirmyndum þegar kemur að drykkju.

Í þættinum er auk Steinunnar rætt við Gísla Sigurðsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar og Tobbu Marínósdóttur rithöfund og stefnumótasérfræðing sem segir sitt álit á tengslum drykkju og stefnumóta á Íslandi.

Ritgerð Steinunnar má nálgast á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Ítarefni

„Íslenskt brennivín: Íslenskur menningararfur“ – Grein eftir Björk Hólm Þorsteinsdóttur sem birtist á hugsandi.is

„Baráttan um bjórinn: Birtingarmynd bjórbannsins á Íslandi í dag“ – BA ritgerð Guðjóns Ólfssonar í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands.

Flokkur: Hefðir og siðir
css.php