Frumsýning í Bíó Paradís

Næsta fimmtudagskvöld, 22. nóvember kl. 20.00, verða fjórir nýjir þættir í heimildaþáttaröðinni Ímyndir frumsýndir í Bíó Paradís.

Þættirnir eru verðug kynning fyrir fræðimennina sem að baki hverri ritgerð standa og vekja verðskuldaða athygli á metnaðarfullum rannsóknum þeirra sem oft og tíðum fá litla athygli utan háskólasamfélagsins.

Þættirnir sem sýndir verða eru:

  • Ásatrú við upphaf 21. aldarinnar – Í þættinum er fjallað um heimsmynd ásatrúarmanna í samtímanum og það sögulega samhengi sem leiðir til þess að ásatrúarfélagið er stofnað 1972, tæplega 1000 árum eftir að íslendingar taka kristni.
  • Kynjaðar sagnir – Í þættinum rekur Júlíana Þóra Magnúsdóttir rannsóknir sínar á áhrifum kyngervis þjóðsagnasafnara á söfnin þeirra.
  • Á veðramótum – Í þættinum er fjallað um alþýðuvísindin sem beitt var áður fyrr þegar gáð var til veðurs og mismunandi næmni manna á veðrabrigði.
  • Menningararfur: Hraungrýti og timburkofar – Í þættinum er fjallað um hvernig hlutir, hefðir og siðir verða að menningararfi og orðræðan í kringum Hraunsrétt í Aðaldal og Kvosina í Reykjavík tekin til skoðunar.

Frumsýningin er öllum opin og aðgangur ókeypis, svo lengi sem húsrúm leyfir. Að sýningunni lokinni munu Björk og Ólafur svara spurningum úr sal.

css.php