Um Ímyndir

Ímyndir hófu göngu sína vorið 2010 – þá undir nafninu Þjóðfræði í mynd. Verkefnið er, eins og upprunalegur titill þess ber með sér, byggt á nýlegum BA og MA rannsóknum nemenda í þjóðfræði við Háskóla Íslands en með því að yfirfæra helstu niðurstöður slíkra rannsókna á myndband má segja að möguleikar þeirra til að ná til aukins fjölda í samfélaginu margfaldist, enda myndbandsformið þægilegur og aðgengilegur miðill í veraldarvefsvæddu samfélagi.

Ný þekking verður til á degi hverjum innan háskólasamfélagsins, þekking sem oft og tíðum nær seint, illa eða alls ekki augum og eyrum almennings, jafnvel þó hún eigi fullt erindi til alþýðu manna. Á bak við hverja rannsókn liggur sviti og (stundum) tár og grátlegt að afrakstur þeirrar miklu vinnu sem námsmenn leggja á sig rykfalli ólesinn á hillum Þjóðarbókhlöðunnar.

Markmið Ímynda hefur frá upphafi verið þríþætt.

  1. Að framleiða fræðsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskólastig sem nýst gæti við kennslu í ýmsum tengdum greinum, svo sem sögu, félagsfræði og íslensku.
  2. Að miðla rannsóknum þjóðfræðinema til almennings og virkja þær þannig í samfélagsumræðunni.
  3. Að veita nemendum í framhaldsskólum innsýn í háskólasamfélagið og opna augu þeirra fyrir þeim möguleikum sem bíða þeirra til að skapa sína eigin þekkingu, hvort sem er í þjóðfræði eða öðrum greinum.

Framleiðsla Ímynda hefur farið fram síðastliðin þrjú sumur og er afraksturinn átján heimildaþættir, hver öðrum ólíkari að efnistökum. Í farteskinu hafa Ímyndir auk þess tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2011. Hvert sumar hafa Ímyndir notið styrks frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og námsbraut í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Auk þess fékk verkefnið styrk úr Háskólasjóði árið 2012 til að standa straum af kostnaði við gerð vefsíðu og til kynningarstarfa.

Auk þáttanna átján má á síðunni finna ýmislegt áhugavert ítarefni sem tengist efni hvers þáttar fyrir sig. Ítarefnið getur vonandi orðið til að dýpka skilning á efninu, tengja þættina málefnum líðandi stundar eða gefa hugmyndir að umræðupunktum og verkefnum sem nemendur geta unnið að eftir áhorfið.

Þjóðfræðinemarnir Björk Hólm Þorsteinsdóttir og Ólafur Ingibergsson hafa borið hitann og þungann af verkefninu en hafa til þess notið leiðsagnar Valdimars Tr. Hafstein, dósents í þjóðfræði. Einnig hefur Valgerður Anna Jóhannsdóttir, verkefnastjóri í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, veitt verkefninu ómetanlegan stuðning. Auk Bjarkar og Ólafs vann Áslaug Einarsdóttir, nemi í mannfræði, að verkefninu í eitt sumar.

Af hverju Ímyndir

Þegar vinna við vefsíðuna hófst var ákveðið að hverfa frá nafninu Þjóðfræði í mynd, enda er það nafn óþjált í vefslóð, og var verkefninu þá gefið nafnið Ímyndir. Ímyndir bera þó enn undirtitilinn Þjóðfræði í mynd enda sá titill mjög lýsandi fyrir verkefnið. Ímynd, samkvæmt íslenskri orðabók, er m.a.: Huglæg mynd félagslegs fyrirbæris […], samsafn eðlis- eða hegðunareinkunna sem talin eru tengjast því, birtist í framkomu, viðmóti, ytra búningi og verkum […].“ Þessi orð gætu einnig lýst þjóðfræðirannsóknum nokkuð vel enda snúa þær oft að rannsóknum á hlutum, hefðum og fyrirbærum sem móta ímyndir og viðhorf einstaklinga og hópa. Því þótti nafnið Ímyndir hæfa verkefninu vel.

 

css.php