Kynjaðar sagnir

Fyrsta þjóðsagnasafn okkar Íslendinga kom út árið 1862 en það var safn Jóns Árnasonar, Þjóðsögur og ævintýri. Í kjölfarið fylgdu söfn Jóns Þorkelssonar, Odds Björnssonar, Sigurðar Nordal og Þórbergs Þórðarsonar, Sigfúsar Sigfússonar, Jóns Thorarensen, Ólafs Davíðssonar, Einars Guðmundssonar og síðast en ekki síst Guðna Jónssonar. Af hverju þessi upptalning? Jú, það sem er merkilegt við þessa upptalningu hér að framan er að ekki ein einasta kona er meðal þeirra sem gaf út þjóðsagnarsafn í fleiri áratugi. Það var ekki fyrr en heilli öld eftir að Jón Árnason gaf út sitt safn að fyrsta safn konu kom út en það var safn Torfhildar Þorsteinsdóttur Hólm sem bar titilinn Þjóðsögur og sagnir.

Hvaða máli skiptir það hvort karlar eða konur safna og setja saman þjóðsagnasöfn? Júlíana Þóra Magnúsdóttir hefur stundað rannsóknir á sagnamenningu og í seinni tíð beint sjónum sínum sérstaklega að kynjafræðilegri nálgun í rannsóknum sínum á sögnum og söfnurum. Þátturinn byggir á erindi Júlíönu á Þjóðarspeglinum árið 2010 „Þjóðsagnasöfnun og kyngervi: Um þjóðsagnasöfnun Torfhildar Þorsteinsdóttur Hólm og mótun íslenskrar þjóðsagna(söfnunar)hefðar.

Í rannsóknum sínum hefur Júlíana komist að því að safn Torfhildar Hólm er að mörgu leyti frábrugðið öðrum þjóðsagnasöfnum frá svipuðum tíma sem karlar gáfu út. Þar má í meiri mæli finna sagnir sem lýsa reynsluheimi kvenna, endurspegla líf þeirra og áhyggjur auk þess sem konur eru fleiri meðal nafngreindra heimildamanna. Þessi mismunur á söfnunum vekur upp spurningar um hvaða áhrif kyngervi safnarans hefur á söfnunina og að sama skapi um möguleika kvenna til að koma að mótun sagnahefðarinnar í landinu.

Erindi Júlíönu frá Þjóðarspeglinum má finna á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

„Huldar víddir heimabólsins: Um rými og dulrænar reynslusagnir kvenna í íslenska bændasamfélaginu“ – Grein eftir Júlíönu Þóru Magnúsdóttur

„Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi? – Aðsend grein á vísindavefinn

„Er vondi karlinn kona? Hugleiðing um hlutverk konunnar í flökkusögnum í samtímanum“ – Grein eftir Valgerði Óskarsdóttur og Margréti Sigvaldadóttur sem birtist á hugsandi.is“

Sagnir milli sanda: rannsókn á sögnum, sagnamönnum og þjóðtrú í Skaftárhreppi. BA ritgerð Júlíönu Þóru Magnúsdóttur í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin kom út árið 2004 og er aðgengileg á Landsbókasafni Háskóla Íslands.

Saga til næsta bæjar: sagnir, samfélag og þjóðtrú sagnafólks frá austurhéraði Vestur – Skaftárfellssýslu. MA ritgerð Júlíönu Þóru Magnúsdóttur í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin kom út árið 2008 og er aðgengileg á Landsbókasafni Háskóla Íslands.

Flokkur: Þjóðsögur Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/6765
css.php