Menningararfur: Hraungrýti og timburkofar

Menningararfur. Lítið orð sem þó hefur mikið vald. Öll höfum við ágæta hugmynd um hvað hugtakið merkir en samt getum við þrætt endalaust um hvað sé menningararfur og hvað ekki. Þess vegna er eðlilegt að við spyrjum okkur hvernig í ósköpunum hlutir, siðir eða venjur verða að menningararfi. Hvað gerir handritin að menningararfi? Lopapeysuna? Eða kjötsúpuna?

Sigurlaug Dagsdóttir leiðir okkur í sannleikann um menningararfinn í þessum þætti. Hún rekur áratuga langar deilur um Hraunsrétt í Aðaldal og sýnir fram á hvernig orðræða deilnanna, það hvernig talað var um réttina, varð til þess að farið var að líta á réttina sem menningararf. Hvaða siðferðislegu skyldur eru lagaðar á herðar okkar sem erfingja menningarverðmæta og hverjum er stætt á að fara með vald yfir þeim, stjórna umræðu um þau, takmarka aðgang að þeim, hagnast á þeim eða jafnvel eyða þeim?

Í þættinum er einnig rætt við Ólaf Rastrick sagnfræðing sem rannsakað hefur umræðuna um menningararfinn sem fólginn er í gömlum byggingum í miðbæ Reykjavíkur, ekki síst í Kvosinni. Hvað á Nasa sameiginlegt með Hraunsrétt í Aðaldal? Hvaða þátt á óttinn við yfirvofandi eyðingu í að skapa hugmyndir okkar um menningararf? Er menningararfurinn okkar að deyja út?

Ritgerð Sigurlaugar má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

„Menningararfur er nýr af nálinni“ – Grein eftir Valdimar Tr. Hafstein dósent í þjóðfræði sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins

„Þjóðir, þjóðminjar og afmörkun sjálfsmynda“ – Grein eftir Sunnefu Völundardóttur sem birtist á hugsandi.is

Gangnamannakórinn á Hraunsrétt 2010 – Myndband af Youtube

Flokkur: Efnismenning, Menningararfur Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/11866
css.php