Hátíð í bæ

Jólin eru tími ljóss og friðar, laufabrauðs og smákaka, hreingerninga og gjafakaupa. Jólin eru líka verðugt rannsóknarefni fyrir þjóðfræðinga.

Í þessum þætti rekur Anna Kristín Ólafsdóttir sögu jólanna með dyggri aðstoð Árna Björnssonar þjóðháttafræðings. Anna Kristín skrifaði ritgerð sína í þjóðfræði en ritgerð hennar var rannsókn á undirbúningi jólanna í Borgafirði og ber nafnið: „Mamma stýrði þessu öllu saman.“

Einstakir þættir jólaundirbúningsins hafa tekið miklum stakkaskiptum í gegnum tíðina meðan öðrum þáttum má í engu breyta. Minna er lagt upp úr hreingerningum og bakstri í dag en fyrir nokkrum árum eða áratugum á meðan meira er lagt upp úr gjöfum, skreytingum og íburðarmiklum jólatónleikum. Eru jólin orðin hátíð kaupmanna, kapítalisma og neysluhyggju eða á þessi þróun sér aðrar útskýringar?

Allir taka þátt í undirbúningi jólanna með einhverjum hætti þó hann geti verið mjög ólíkur á milli fjölskyldumeðlima, sér í lagi kynjanna. Konur hafa alltaf spilað stórt hlutverk í undirbúningi jólanna og þrátt fyrir aukið jafnrétti í samfélaginu í seinni tíð má ennþá greina talsverða kynjaslagsíðu þegar kemur að undirbúningi jólanna.

Þrátt fyrir alls kyns breytingar, hvort sem þær eru til góðs eða til marks um síaukna neysluhyggju þjóðarinnar, eru jólin hátíð sem vekur hlýju í hugum flestra og eflaust má finna á flestum heimilium hefðir tengdar jólunum sem ekkert fær haggað.

Ritgerð Önnu Kristínar má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

„Ertu byrjuð að baka“ – Grein eftir Sólveigu Ólafsdóttur á hugsandi.is

„Um jólaköttinn“ – Grein eftir Hrefnu S. Bjartmarsdóttur á hugsandi.is

„Skítug jól“ – Grein eftir Eydísi Guðmundsdóttur á hugsandi.is

„Markaðsvæðing jólanna“ – Grein sem birtist í tímaritinu Vísbending

„Mamma býr til jólin“ – Aðsend grein frá Kolfinnu Baldvinsdóttur í tímaritinu Veru

Saga jólanna eftir Árna Björnsson gefin út af Tindi árið 2006

Flokkur: Hátíðir og merkisdagar, Hefðir og siðir Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/6369
css.php