Kukl og Kaffi

Í þessum þætti setjumst við niður og drekkum kaffi með Jónu Kristínu Sigurðardóttur, höfundi ritgerðarinnar „Kukl og kaffi.“ Hún rekur fyrir okkur sögu bollaspádóma allt frá því kaffi kom fyrst til landsins. Kaffiþyrstum landanum þykir það eflaust undarlegt en það er ekki fyrr en um miðja 19. öld sem kaffi nær vinsældum á Íslandi.

Með kaffinu fylgja bollaspádómar en þeir eru ein birtingarmynd forlagatrúar sem hefur í gegnum tíðina verið tilraun almúgans til að útskýra hið óútskýranlega og sjá fyrir hið ókomna. Þessi þörf mannfólksins að ráða í framtíðina og reyna að hafa áhrif á framvindu tímans á sér djúpar rætur í íslenskri menningu og sérstaklega spiluðu bollaspádómar stórt hlutverk í menningu kvenna á árum áður, þegar staður konunnar var í enn ríkari mæli inni á heimilinu.

Auk Jónu Kristínar er rætt við Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðing en hann er virkur bollaspádómamaður og notar þekkingu sem hann fékk í arf frá ömmu sinni. Hann hefur rannsakað forlagatrú í langan tíma og segir okkur hér frá því sem hann hefur komist að auk þess að hann sest niður með okkur og skyggnist inn í framtíð kvikmyndagerðarfólksins, eins og hún birtist bollanum.

Ritgerð Jónu Kristínar má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

“Kukl og kaffi – um bollaspádóma“ – Grein eftir Jónu Kristínu Sigurðardóttur á hugsandi.is

„Er eitthvað mark takandi á spádómum og þess háttar?“ – Aðsend spurning á vísindavefinn

Spámaður.is – Gagnvirk spádómasíða

Fyrirboðar, tákn og draumráðningar: aðgengileg uppflettibók með skýringum á því hvernig þú getur túlkað vísbeningar um fortíð þína, nútíð og framtíð í því sem ber í vöku og draumi eftir Símon Jón Jóhannsson. Gefin út af Veröld árið 2007.

Sjö, níu, þrettán: hjátrú Íslendinga í daglega lífinu eftir Símon Jón Jóhannsson. Gefin út af Vöku-Helgafell árið 1995.

 

Flokkur: Þjóðtrú og alþýðuvísindi Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/4682
css.php