Hjálækningar óperusöngvara – lifandi starfsgreinahefð

Strætóbílstjórar og afgreiðslufólk í bakaríum leiðir sjaldan hugann að slímhúðinni. Það gera fæstir, sama af hvaða starfsstétt þeir eru. En óperusöngvarar eru hinsvegar með slímhúðina á heilanum, eins og Ólöf Breiðfjörð segir okkur í þessum þætti um starfsgreinahefðir óperusöngvara.

Líkamleg og andleg heilsa skipta óperusöngvara miklu máli. Atvinnuöryggi þeirra er háð því að líkaminn sé í toppstandi enda er atvinnutæki þeirra raddböndin í hálsinum. Heilbrigð slímhúð í öndunarfærunum skiptir líka höfuðmáli fyrir atvinnusöngvara og ýmsum ráðum er beitt til að halda henni í hinu fullkomna ásigkomulagi. Kvefpest eða lítilsháttar þurrkur í hálsinum, sem skipta okkur flest litlu máli, geta haft dramatískar afleiðingar í heimi óperusöngvara þar sem oft og tíðum er mikil samkeppni um hlutverk.

Óperusöngvarar reyna eftir fremsta megni að forðast inntöku lyfja við slappleika enda hafa þau flest slæm áhrif á slímhúðina. Í staðinn reiða flestir sig á óhefðbundnar lækningaaðferðir. Sumar hljóma kunnuglega, eins og að borða hvítlauk til að forðast kvefpestir, en aðrar eru meira framandi, eins og að stinga hvítlauksgeirum í eyrun á sér eða að drekka eigið hland.

Fjöldinn allur af misfurðulegum aðferðum er beitt af óperusöngvurum sem miðla reynslu og ráðum hver með öðrum og auka þannig samheldni starfsstéttarinnar. Í þættinum er rætt við Ólöfu Breiðfjörð, höfund BA ritgerðar í þjóðfræði um hjálækningar óperusöngvara, og Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvara og eiginmann Ólafar. Auk þess er rætt við Timothy Thangerlini þjóðfræðing sem m.a. hefur rannsakað starfsgreinahefðir sjúkraflutningamanna.

Ritgerð Ólafar má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

„Með saltvatn og ótta í farteskinu: Hjálækningar óperusöngvara“ – Grein eftir Ólöfu Breiðfjörð sem byggð er á BA ritgerð hennar og birtist á hugsandi.is

„Hvað er hefð?“ – Grein eftir Ciliu Marianne Úlfsdóttur

Flokkur: Hefðir og siðir, Þjóðtrú og alþýðuvísindi
css.php