Húsmæðraskólar að fornu og nýju

Eftir að hafa gengið í Hússtjórnarskólann í Reykjavík að fordæmi ömmu sinnar og móður ákvað Ólöf Dröfn Sigurbjörnsdóttir að skrifa lokaritgerðina sína í þjóðfræði um Húsmæðraskóla og kanna þróun hússtjórnarfræðslu á Íslandi í tengslum við þjóðélagsþróun. Hún styðst við einsögurannsókn þ.e. hún styðst við upplifun ömmu sinnar, mömmu sinnar og hennar eigin til þess að varpa ljósi á þessa þætti. Ritgerðin ber nafnið „Ég minnist þess alltaf með hlýju að hafa verið þarna.“ Einsögurannsókn á námi þriggja kynslóða við Húsmæðraskóla og er aðgengileg í hlekknum hér til hægri. Auk Ólafar er rætt við Ingibjörgu Hallbjörnsdóttur en hún hefur einnig beint spjótum sínum að þessu efni.

Eftir iðnbyltinguna breyttist margt, þar á meðal vinnuhættir. Karlarnir unnu úti og konurnar inni. Hlutverk kvenna, væntingar og viðmið voru skýr – að búa heimilið eins vel úr garði og kostur var á. Rétt eins og Ólöf orðar það: „Heimilið endurspeglaði gæði konunnar“. Það var því mikilvægt að þær kynnu vel til verka þegar kom að því að stofna til heimilis.

Það var margt og margir sem komu að því að stofnaðir væru húsmæðraskólar um allt land. Þegar þeir voru flestir voru þeir 12 talsins dreyfðir hingað og þangað um landið. Hvort sem það var innreið kvennfélaga í samfélaginu eða valdamiklir menn sem vildu halda í sveitamenningu og þjóðleg gildi þá leyndi það sér ekki, áhuginn fyrir því að ganga í húsmæðraskóla var mikill meðal kvenna. En hvers vegna?

Í dag eru tímarnir aðrir og fáar stúlkur á menntaskóla aldri sem velja það að fara frekar í húsmæðraskóla en í hefðbundið framhaldsskólanám. Aðeins tveir skólar eru nú starfræktir hér á landi og óvíst er um framhaldið. Ein ástæða þess að færri kjósa þessa tegund náms í dag gæti verði sú að upprunalegt hlutverk skólanna loði ennþá við þá, eða hvað?

Ítarefni

„Þær vefa í dúk og bönd draumanna rós og reyni“ – B.Ed ritgerð Álfheiðar Birnu Þórðardóttur frá Háskóla Íslands

„Húsmæðrafræðsla“ – Grein úr Fjallkonunni frá árinu 1909 um mikilvægi þess að stofna húsmæðraskóla

Safn rita og greina um kvennabaráttu á Íslandi frá 1850

Heimasíða Hússtjórnarskólans í Reykjavík

Flokkur: Hefðir og siðir Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/8257
css.php