Umskiptingur eður ei

Umskiptingur er vera í íslenskum þjóðsögum, oftast gamall álfur, sem settur er í stað mannsbarns sem álfar hafa rænt. Í íslenskum þjóðsagnasöfnum má finna allnokkrar sagnir af þessum fyrirbærum en þau eru einnig þekkt í löndunum í kringum okkur. Í þessum sögnum segir frá því hvernig skapgerð ungabarna umturnast, þau verða illviðráðanleg og óvenjuleg í útliti, grett og ófríð.

Fram til þessa hafa sagnir af umskiptingur helst verið túlkaðar sem varúðarsagnir sem beint var að mæðrum, þ.e.a.s. að þeim væri ætlað að hræða mæður til þess að sinna uppeldi barna sinna af kostgæfni annars væri hætta á að álfar kæmust að börnunum og stælu þeim en skildu eftir í staðinn gamlan álfakarl.

Í nýlegri BA ritgerð sinni býður Eva Þórdís Ebenezersdóttir hinsvegar upp á nýjan skilning við lestur á umskiptingasögnum þar sem hún leggur út frá kenningum í þjóðfræði og fötlunarfræði.

Eva Þórdís gengur út frá því að svokallaðir umskiptingar séu í raun börn með fatlanir eða skerðingar sem fólk í sveitasamfélagi fyrri alda kunni ekki skil á eða gat ekki útskýrt á annan hátt. Hlutverk móðurinnar og ábyrgðin sem samfélagið hefur sett á herðar hennar í gegnum tíðina við barnauppeldi eru Evu hugleikin, bæði ábyrgðin sem birtist í sögnunum og eins í viðtölum sem hún tók vegna ritgerðarinnar við mæður sem eignast hafa börn með skerðingar.

Auk Evu Þórdísar er í þættinum rætt við Júlíönu Þóru Magnúsdóttur þjóðfræðing.

Ritgerð Evu má nálgast á hlekknum hér til hægri.

Ítarefni

„Níu spurningar um fötlun og fjöldamenningu“ – Grein eftir Ármann Jakobsson og Hönnu Björg Sigurjónsdóttur

„Skarð í bolla og vör: Meðgönguhjátrú í þjóðháttasafni“ – Grein eftir Evu Þórdísi Ebenezersdóttur á hugsandi.is

Átján barna faðir í álfheimum á Snerpu og í Sagnagrunni

Sagnagrunnur – Safn íslenskra sagna á netinu

Umskiptingasagnir á Ísmús, gagnagrunni um íslenska menningu fyrr og nú

„Átján barna faðir í álfheimum: Athugun á hlutverkaskiptum í táknmálsútgáfu sögunnar“ – BA ritgerð Ingu Rósu Ragnarsdóttur í táknmálsfræði frá Háskóla Íslands

Flokkur: Þjóðsögur, Þjóðtrú og alþýðuvísindi
css.php