Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrr og nú

Á hverju einasta ári, fyrstu helgina í ágúst, leggja tugir þúsunda leið sína til Vestmannaeyja á Þjóðhátíð. Peyjar og pæjur hafa beðið eftir þessari helgi allt árið og á hverju ári er öllu tjaldað til. Fyrsta hátíðin var haldin árið 1874, þá með allt öðru sniði en hátíðin er í dag. Fólk mætti þá í sínu fínasta pússi og aðstandendur höguðu hátíðinni eftir veðri. Aðaláherslan var þá lögð á íþróttaviðburði í stað tónlistar en um miðbik aldarinnar fóru hlutirnir að snúast við og færa sig yfir í það form sem við þekkum í dag. En hvað er svona merkilegt við Þjóðhátíð í Eyjum og hvers vegna er hún Eyjamönnum svona mikilvæg? Hvað gerist þegar rökkvar og eldarnir kvikna?

Þátturinn byggir á ritgerðinni „Þegar ágústnóttin nálgast nýt ég þess að vera til“ eftir þjóðfræðinginn Elsu Ósk Alfreðsdóttur. Þjóðhátíð birtist okkur í tveimur myndum. Annarsvegar sem fjölskylduhátíð á daginn en hinsvegar sem karnival þegar rökkva tekur. Þá er stigið inn í jaðartímabil þar sem reglur hversdagsins falla úr gildi og öllu er snúið á hvolf. Á einu fullkomnasta leiksvæði Íslands, Herjólfsdal, leitast fólk við að brjótast undan oki agasamfélagsins. Það klæðist búningum, syngur söngva og gerir hluti sem það myndi annars ekki gera í daglegu lífi. Eins og Elsa orðar það: „ekkert er eðlilegra en að vera óeðlilegur á þjóðhátíð“.

Ásamt Elsu er rætt við Terry Gunnell prófessor í þjóðfræði sem varpar sögulegu ljósi á hátíðir á borð við Þjóðhátíð, uppbyggingu þeirra og mikilvægi fyrir samfélagið.

Ítarefni

Heimasíða Þjóðhátíðar í Eyjum

Hátíð: heimildarmynd um Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Umsjón og stjórn Páll Steingrímsson. Gefi út af KVIK árið 2007. Hægt er að nálgast myndinna á Landsbókasafni Háskóla Íslands og Bókasafni Vestmannaeyja.

Flokkur: Hátíðir og merkisdagar Hlekkur á ritgerð: hdl.handle.net/1946/6998
css.php